20.10.2007 | 04:18
Að gefa sér tækifæri
Það er alltaf gaman að velta fyrir sér lífinu. Flest fáum við okkar tækifæri a.m.k. ef við höfum augun opin. En hvað er tækifæri? Hvað finnst okkur vera tækifæri? Hvernig koma þau til okkar, eða hvernig sækjum við þau?
Það má segja að lífið sjálft sé tækifæri. Tækifæri til að lifa og fá að taka þátt í lífinu. En það er ekki sjálfsagt og þess vegna ber að vera þakklátur fyrir hvern dag og gleðjast yfir hverju ári sem okkur er gefið. Hver afmælisdagur er hátíð og þess vegna tækifæri til að gleðjast og gera mikið úr honum. En það er líka hægt að glopra tækifærunum úr höndum sér og það í stórum stíl. Og jafnvel að missa af sjálfum sér.
Í mínum huga er tækifæri eitthvað sem við sjáum sem ávinning. Eitthvað sem gefur okkur möguleika, möguleika til vaxtar, þroska, gleði eða framþróunar á einhvern hátt. Það er auðvitað mjög einstaklingsbundið hvað fólk sér sem tækifæri, hvað fólk velur og hvernig lífi fólk vill lifa. Það sem einum finnst tækifæri finnst öðrum sóun eða enginn ávinningur af. Eitt er víst að við eigum flest fleiri tækifæri í vændum en okkur grunar. Jú, það sem ég meina er það að við þurfum að vera vakandi. Þurfum að kunna að gefa og þiggja og sjá hvað lífið hefur upp á að bjóða. Kunna að grípa gersemar lífsins á hverjum degi, í stóru OG smáu. Tækifærin koma ekki alltaf á silfurfati, stundum þarf að hafa fyrir þeim en önnur og líklega mörg hoppa inn í líf okkar án þess að við sjáum þau. Þeim er sólundað í blekkingu og blindu græðginnar og jafnvel þeirri vanþakklátu hugsun sem við líklega flest dettum í að vilja eitthvað annað, meira og betra en við höfum. En sennilega þegar öllu er á botninn hvolft er það sem við höfum og eigum stórkostlegt og dásamlegt......en illa nýtt.
Það vill líka stundum gleymast að í lífinu höfum við VAL. Við getum hreinlega oft valið að vera hamingjusöm eða valið (oftast ómeðvitað) að vera óhamingjusöm, neikvæð og leið. Við getum valið að vera fúl á mánudagsmorgni og nenna ekki inn í vinnuvikuna. Getum valið þegar gardínurnar eru dregnar frá að fúlsa yfir veðrinu. Getum valið að vera fúl yfir því að vera sein og þurfa að skafa af bílnum Getum valið að vorkenna okkur fyrir að þurfa að vakna að helgarmorgni í vinnu. Getum valið að að dæsa yfir því að þurfa að hlaupa 3 hæðir. Við getum valið... það er bara spurning hvað við VELJUM AÐ VELJA, sjálfsvorkun og hlutverk fórnarlambsins eða að taka lífinu og verkefnum dagsins sem ögrun, gjöf og tækifæri. Ef við temjum okkur gleði og trúum því að lífið sé fullt af tækifærum verðum við hamingjusöm. Hamingjan verður okkur töm og ósjálfrátt förum við að sjá lífið fullt af tækifærum og gleði og um leið öðlast innri ró til að takast á við það þegar lífið er ögrandi.
Hvert er ÞITT VAL??
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)