29.8.2007 | 02:29
Áhugamál - Gleðistundir
Mikið ofsalega er ég glöð núna. Ég fór í kvöld á aðalfund í félagsskap sem ég tilheyri. Það var alveg yndislegt að hitta fólkið eftir sumarið og ég fann hvað það gefur mér mikið að hitta þau reglulega yfir veturinn. Fyrir mér eru það sannkallaðar gleðistundir sem ég hef átt með þessum vinum mínum til fjölda ára. Þessi félagsskapur er eins og eldsneyti á mig og að tilheyra hópi sem maður treystir og þykir vænt um finnst mér ómetanlegt. Án þeirra get ég illa hugsað mér tilveruna. Já, það er nauðsynlegt að sinna áhugamálum sínum. Maður verður að eiga svona stundir með sjálfum sér, t.d. eitt kvöld í viku. Ef þú ert að kafna í vinnu og gleymir að sinna áhugamálum þínum, byrjaðu þá strax að endurskipuleggja. Ég er viss um að þú munt ekki sjá eftir því.
|
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2007 | 09:09
Yndislegt ljóð
man ég augun þín,
í þeim las ég alla
elskuna til mín.
Mamma, elsku mamma,
man ég þína hönd,
bar hún mig og benti
björt á dýrðarlönd.
Mamma, elsku mamma,
man ég brosið þitt;
gengu hlýir geislar
gegnum hjarta mitt.
Mamma, elsku mamma,
mér í huga skín
bjarmi þinna bæna,
blessuð versin þín.
Mamma, elsku mamma,
man ég lengst og best
hjartað blíða, heita --
hjarta, er sakna' ég mest.
(Sumarliði Halldórsson)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2007 | 04:49
Hraðhlaup, langhlaup, nautnir
Hvað er hún að meina konan með þessari fyrirsögn?
Jú, það er alltaf gaman að spá í lífið og tilveruna, hvernig við lifum, hvernig við hugsum, hvernig við getum gert heiminn betri og hvernig við getum notið. Ég hugsa að flestir geti verið sammála um að hraðinn er óskaplega mikill í umhverfinu. Allt þarf að gerast hratt og vel, án tafar. Hlutirnir þurfa að virka strax, tölvan að opna sig hratt og hugsa hratt, o.sfrv. os.frv. En erum við að njóta nóg? Finnum við fæturna snerta jörðina?
Hvernig væri að vera svolítið meðvitaðri um andartakið? Finna fæturna snerta jörðina, finna andardráttinn sinn og þreifa á tímanum í stað þess að láta hann fljúga. Við getum gert þetta bæði þegar mikið er að gera og lítið er að gera. Ef við tengjum huga okkar fegurð og kærleika og því að njóta, finnum við ósjálfrátt það besta í þeim aðstæðum sem við erum að takast á við í dagsdaglegu lífi og við getum slakað á, og fundið og notið verksins og augnabliksins. Eins ef það besta er ekki sjáanlegt verður auðveldara að finna lausnina og vinna að því besta. Þegar maður er meðvitaður um augnablikið fer maður að sjá svo miklu meira í hverju andartaki. Þú finnur betur fyrir fólki og færð meira út úr hverri mínútu, tekur betur eftir umhverfinu og lærir að njóta hvers smáræðis. Lærir að sjá allt það sem við getum lært af öðrum með því að vera meðvitaður um andartakið og meðvitaður um þær gjafir sem við erum að þiggja frá umhverfinu og fólki sem á vegi okkar verður. Að bjóða góðan dag í göngutúrnum þeim sem maður mætir og brosa, gefur okkur bros á móti.
Í lífinu erum við alltaf að gefa og þiggja, veljum að þiggja hið góða, veljum að gefa hið góða.
Njótum umhverfisins og andartaksins,
byrjaðu í dag, ÞÓTT þú haldir
að þú hafir mikið að gera.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.8.2007 | 23:31
Alltaf jafn gaman á Fiskideginum Mikla
Fiskinn minn, namminamminamm..... já við familían skelltum okkur norður á Fiskidaginn Mikla MJÖG GAMAN. Ætli það séu ekki um 30.000 manns hérna með mér
Hátíðin byrjaði með því að fólk hittist við kirkjuna hlustaði á fallega tónlist og boðskap um vináttuna frá Hr. Karli Sigurbjörnssyni og Frú Vigdísi Finnbogadóttur. Loks mynduðu allir vinakeðjuna með því að haldast í hendur. Mjög fallegt og áhrifaríkt fannst mér. "Júlli kærleikur" (www.julli.is) hefur örugglega staðið fyrir þessu.
Hjá vinahjónum okkar var útbúin dýrindis fiskisúpa í gærkvöldi (föstud), reyndar 2 tegundir, húsbóndinn á því heimili reyddi þetta fram af sinni alkunnu snilld. 70 manns mættu í súpu og allir skemmtu sér konunglega
Í dag vantaði ekki matinn á aðalsvæðinu, æðislega góð bleikja á boðstólnum, plokkfiskur, þorskur, bollur rækjusalat, namminamm... jújú og svo líka hrátt hrefnukjöt og bleikja með sojasósu held ég og einhverju SVAKALEGA sterku gumsi. Úff hélt ég myndi bara stirðna upp þarna á staðnum, og er ég nú gefin fyrir sterkan mat. En þessu kom ég bara ekki niður. Allt annað alveg fyrirtak.
Margir voru búnir að setja upp sölubása í bænum og seldu handverk, heimatilbúnar sultur, o.fl o.fl.
Dætur mínar skemmtu sér við að horfa á brúðubílinn hennar Helgu Steffensen, meiriháttar gaman. Sú eldri fór svo með pabba sínum á Dýrin í Hálsaskógi, nóg að gera
Eftir dvölina á aðalsvæðinu var svo haldið til vinahjónanna og jahá, þar var bara hlaðborð af tertum og fíneríi.
Fiskidagurinn Mikli er greinilega kominn til að vera og ég á eftir að mæta hingað aftur og aftur og aftur og aftur....... ...var reyndar að koma í þriðja sinn og EKKI það síðasta, bara byrjunin hjá mér
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.8.2007 | 03:06
Að vera við stjórnvölinn
Hver stjórnar lífi þínu? Er það vinkona þín? Er það mamma þín? Er það makinn? Eru það systkini þín? Er það vinnuveitandinn? Er það nágranninn? Er það .....þú sjálf(ur)? Ertu raunverulega að lifa því lífi sem þú vilt lifa og finnst þú ættir að lifa? Öll höfum við örugglega upplifað það einhvern tímann á æfinni (vonandi ekki um langan tíma samt!) að finnast við eiga að gera eitthvað eins og öðrum finnst, eða að velta því fyrir okkur hvað þessum eða hinum fyndist nú ef við gerðum þetta eða hitt. Að við verðum að gera þetta út af hinu eða þessu og svo mætti lengi telja. En skyldi þetta sama fólk vera svona mikið að spá í þessa hluti? Nei... oftast er því slétt sama. Og þar fyrir utan erum við sjálf ábyrg á okkar eigin hamingju og enginn veit betur en við hvað við viljum og hvað er best fyrir okkur. En svo er aftur annað mál hvort við komumst í tengsl við þennan vilja okkar. Hraði, streita, samkeppni, græðgi og vitleysa draga marga frá sjálfum sér og sumir enda sem áhyggjufullir brjálæðingar sem þeysast áfram um víða veröld í leit að friði, ró, peningum og betra lífi því það hljóti örugglega að vera til eitthvað betra og meira en það sem við höfum nú. Eða hvað? Auðvitað á þetta ekki við um alla en ég er svolítið hrædd um að þetta eigi við ansi marga. Við verðum ekki frjáls nema þann dag sem við áttum okkur á því að ENGINN stjórnar lífi okkar nema við sjálf. Daginn sem við felum okkur sjálfum alla ábyrgðina á eigin lífi, ákvörðunum, hugsunum og gjörðum erum við frjáls. Og við verðum svo frjáls að við áttum okkur á að við getum öðlast, og gert svo miklu meira en okkur óraði fyrir. Og þú hefur um leið miklu meira að gefa. Þú verður traustsins verður, ert örugg(ur) með þig, kannt að setja mörk, og getur á mun heiðarlegri hátt áttað þig á hvað þínar ákvarðanir þýða fyrir þig og þína fjölskyldu. Taktu ákvörðun um hamingju og hún er handan við hornið... undir þinni eigin stjórn.
|
Bloggar | Breytt 5.8.2007 kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)